Fara í efni

Vinnutengd streita - Orsakir, úrræði og ranghugmyndir

Til baka

Vinnutengd streita - Orsakir, úrræði og ranghugmyndir

Dr. Ingibjörg H. Jónsdóttir forstöðumaður Institutet för Stressmedicin og prófessor við Háskólann í Gautaborg

 

„Hugtakið streita er flókið, ekki síst vegna þess að fólk leggur mjög mismunandi skilning í orðið sjálft, allt eftir því hvert samhengið er. Hægt er að einfalda myndina og skipta hugtakinu andleg streita upp í streituálag, streituskynjun, streituhegðun, líkamleg áhrif streitu og síðast en ekki síst afleiðingar langvinns streituálags sem líka má kalla streitutengda vanheilsu. Þar getur bæði verið um að ræða líkamlega eða andlega vanheilsu. Streituálag í nútíma samfélagi getur því komið fram sem andleg einkenni af ýmsu tagi þar með talið þunglyndi og kvíði en rannsóknir hafa sýnt fram á að andleg streita er einnig tengd mörgum öðrum einkennum og sjúkdómum, þar með talið ýmsum verkjasjúkdómum, sykursýki, hækkun blóðþrýstings og meðfylgjandi hjarta- og æðasjúkdómum. (Brunner & Kivimaki, 2013; Hamer, Kivimaki, Stamatakis, & Batty, 2012; Madsen et al., 2017).

Nútíma samfélag hefur áhrif á okkur

Á síðustu áratugum hafa átt sér stað gífurlegar breytingar í lífi fólks. Nútíma tæknivæðing og alþjóðavæðing hafa haft mikil áhrif á okkur og líkt og í byrjun 18. aldar og 19. aldar kemur það til með að taka tíma að aðlagast þessum breytingum. Breytingarnar eru hraðar og það verður erfiðara og erfiðara að aðlagast því gífurlega upplýsingaflæði sem á sér stað í kringum okkur. Við eigum líka erfitt með að aðlaga okkur þeim sveigjanleika sem okkur býðst í dag. Sum störf hafa þróast þannig að of mikill sveigjanleiki er til staðar, nokkuð sem gerir fólki erfitt fyrir að draga línur milli vinnutíma og frítíma. Aðrir hópar i samfélaginu glíma við of lítinn sveigjanleika og þeir einstaklingar ráða oft litlu um hvernig vinnan er unnin. Það getur oft verið flókið að útskýra þessi ferli vegna þess að bæði of mikill og of lítill sveigjanleiki getur haft neikvæð áhrif á líðan fólks.

Annar mikilvægur þáttur sem kemur til með að hafa stór áhrif á vinnumarkaðinn er breytingin sem er að verða á aldursamsetningunni í heiminum. Þessi breyting hefur m.a. þau áhrif að mun fleiri einstaklingar koma til með að verða yfir 100 ára gamlir og margir koma til með að þurfa á heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónstu að halda. Ef litið er til þess mannafla sem stendur vinnumarkaðinum til boða, þá munu hlutfallslega færri einstaklingar koma til með að vinna þau störf sem verða að vera til staðar svo að samfélagið geti boðið upp á þá þjónustu sem fólk þarfnast; skólastarfsemi, félagsmálaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.

Vinnustaðurinn

Samfélagsbreytingar hafa auðvitað haft gífurleg áhrif á vinnustaðinn. Mörg störf eru orðin flóknari og einfaldari störf eru mörg hver ekki til staðar lengur. Rannsóknir á streituvöldum á vinnustöðum hafa aukist og kunnáttan er meiri nú en fyrir 10-15 árum síðan (Theorell et al., 2015). Þeir þættir sem hafa verið mest rannsakaðir eru miklar vinnukröfur og andlegt álag. Kröfur einar og sér eru þó sjaldan einhliða skýring á streitutengdum einkennum. Nægur sveigjanleiki og gott skipulag geta komið í veg fyrir að miklar kröfur hafi neikvæð áhrif á líðan fólks. Álag samanborið við umbun, einelti, óréttlæti, óljósar vinnulýsingar, léleg samskipti, óskýra stjórnarhætti og lélegt skipulag eru aðrir þættir sem klárlega hafa verið tengdir við aukna tíðni streitutengdra einkenna á vinnustöðum (Vingård, et al 2015). Aðstæður í einkalífi hafa augljóslega líka áhrif á líðan fólks en vitað er að ef aðstæður eru hagstæðar á vinnustað þá heldur fólk góðri heilsu, þrátt fyrir að erfiðar aðstæður í einkalífi.

Nýjar rannsóknir sýna í auknum mæli að starfshættir, óljós stjórnun á vinnustað, forsendur stjórnenda, óljós markmið og óljósar vinnulýsingar eru þeir þættir sem huga ber að til að efla heilsu á vinnustað og koma í veg fyrir streitu hjá starfsfólki. Sérstaklega hafa rannsóknir á aðstæðum stjórnanda verið í fókus. Eitt dæmi um þetta er sú umræða um það hversu marga starfsmenn einstaklingur getur haft sem nánasti yfirmaður. Stjórnun á stærri starfsmannahóp en 35-40 manns gefur litla sem enga möguleika á að geta gert það sem ætlast er til miðað við stærð hópsins. Þetta er auðvitað breytilegt eftir vinnustöðum en þessi viðmiðun er talin frekar algild.

Konur og vinnutengt streituálag. Kynið eða starfið?

Konur eru almennt meira frá vinnu vegna andlegs álags og streitutengdra einkenna og umræðan hefur lengi snúist um hvaða þættir valdi þessum mun. Nýjar rannsóknir benda til að skoða verði aðra þætti en kynið. Vinnustaðir með mælanlegt meira sálfræðilegt álag og verri vinnuskilyrði eru oftar en ekki vinnustaðir þar sem konur eru í meirihluta. Þetta er líklega ein mikilvægasta ástæðan fyrir því afhverju konur þjást oftar af streitutengdum einkennum. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að það skiptir litlu máli hvort um konu eða karlmann sé að ræða á þessum vinnustöðum. Ef konur eru í meirihluta á þessum vinnustöðum eru konur einnig i meirihluta hvað streitutengd einkenni og geðraskanir vegna streituálags varðar (Sverke, et al 2016).

Skólar og heilbrigðiskerfið, kirkjan og félagsmálakerfið eru þeir vinnustaðir sem nefndir eru í þessu samhengi. Í öllum þessum tilfellum er meirihluti starfsmanna konur. Þegar aðstæður hvað varðar álag, skipulag, óljósar vinnulýsingar, stuðning við starfsmenn og forsendur yfirmanna eru mældar, kemur í ljós stór munur á milli vinnustaða þar sem konur eru oftar í meirihluta miðað við vinnustaði þar sem fleiri karlmenn eru við störf (Björk & Härenstam, 2016; Corin & Björk, 2016). Sérstaklega kemur þetta í ljós þegar litið er til stuðnings við yfirmenn og hversu marga starfsmenn hver yfirmaður ber ábyrgð á. Hjá hinu opinbera, sérstaklega þegar um er að ræða skjólstæðingastörf, eru yfirmenn oft ábyrgir fyrir 50-100 starfsmönnum en tölur sem þessar sjást afar sjaldan í öðrum geirum. Samhliða þessu er stuðningur við þessa yfirmenn mun minni en sá stuðningur sem stjórnendur í öðrum geirum fá, t.d frá mannauðsdeildum. Sem er merkilegt þar sem reyndin ætti að vera öfug, þ.e. fleiri starfsmenn, þeim mun meiri stuðningur. Þegar bætt er við álagi vegna heimilis og barna, þá stendur eftir sú spurning hversu mikið af þeim kynjamun sem við sjáum hvað varðar algengi streitutengdra einkenna skýrist af hreinum kynjamun en ekki af vinnuskilyrðum og mismunandi álagi.

Brýnt er að beina umræðunni um streituvalda á vinnustað, aðstæðum stjórnenda og kynjamuninn i réttan farveg. Að við gerum okkur grein fyrir raunverulegum orsökum þess að konur eru í meirihluta hvað varðar veikindafjarveru, oft langtíma vegna streitutengdra einkenna. Ef við höldum áfram að leita skýringar í lífeðlisfræði kvenna eða að konur skuli ekki þola streitu- álag eins vel og karlmenn, komum við ekki til með að leysa streituvandamálin á vinnustöðum.

Það sama gildir um stoðkerfissjúkdóma. Í skýrslu frá sænska Arbetsmiljöverket er sýnt fram á að það eru frekar aðstæður en sjálft kynið sem skýrir hærri tíðni stoðkerfisvandamála meðal kvenna. Konur eru einfaldlega oftar að vinna við endurtekningar og einhæf störf sem geta haft slæm áhrif á vöðva vegna of mikils álags. Ef karlmenn myndu vinna svipaða vinnu eru líkurnar á stoðkerfisvandamáli þær sömu og fyrir konur. Hér skiptir hreyfing miklu máli. Bæði konur og karlar væru betur sett ef hreyfing væri stunduð reglulega til að koma í veg fyrir stoðkerfisvandamál.

Fjarlægja steininn eða aðlaga skóinn að steininum?

Allt frá því að streituvandamál og fjarvistir sökum stoðkerfisvandamála og geðraskana hafa aukist hefur áherslan verið að einblína á einstaklingsbundin úrræði. Streitunámskeið, hugræn atferlismeðferð, sjálfsbeiting, hreyfing og árvekni (Mindfulness) eru nokkur af mörgum þeim annars ágætu úrræðum sem notuð hafa verið till að styrkja einstaklinga til að takast betur á við streitu og álag. Ágæti þessara úrræða hafa verið staðfest með vísindalegum rannsóknum þó svo að þær séu misjafnar hvað varðar áhrif miðað við hvaða þættir eru mældir. Þessi mikla áhersla á einstaklingsbundin úrræði hefur orðið til þess að áherslan á að skoða raunverulegar orsakir þess að streitan hefur aukist á vinnustöðum hefur ekki verið til staðar i sama mæli. Þessu má líkja við skó sem er fullur af steinum. Í staðinn fyrir að gera tilraun til að fjarlægja steinana úr skónum þá aðlagar maður skóinn að steinunum.

Sú hraða þróun sem átt hefur sér stað á vinnustöðum, sérstaklega í störfum sem krefjast mikils hvað varðar samskipti við aðra starfsmenn eða skjólstæðinga, hefur orðið til þess að vinnuskipulag hefur breyst. Margir starfsmenn búa við aðstæður þar sem starfið er ílla skipulagt, stuðningur lítill, samskiptin léleg og vinnuhópurinn hefur ekki tök á að samræma sín störf. Að halda undir þessum kringumstæðum að einstaklingsbundin úrræði eins og árvekni, hugræn atferlismeðferð eða hreyfing geti lagað þessi skipulagsmál er nokkuð merkilegt en það er nákvæmlega það sem hingað til hefur verið gert.

Við höfum einfaldlega verið svo upptekin af því að einblína á þessi einstaklingsúrræði að enginn hefur tekið eftir steinunum í skónum. Það er náttúrulega útilokað að hægt sé að fría sig ábyrgð á því að hagræða starfsskilyrðum og styðja yfirmenn til þess að þeir geti unnið vinnu sína með því að senda starfsfólkið á streitunámskeið eða niðurgreiða kort í líkamsrækt. Það er ljóst að breyta verður um stefnu í þessum málum og breyta áherslum.

Umræðan hefur breyst í Svíþjóð og skilningur aukist á því að aðrar nálganir eru nauðsynlegar. Þetta hefur leitt til þess að ný reglugerð tók gildi á síðasta ári (Organisatorisk och social arbetsmiljö (AFS 2015:4); www.sv.se). Þessi reglugerð einblínir á starfshætti og skilyrði á vinnustað í staðinn fyrir að einblína á að einstaklingurinn sé vandamálið. Áhersla er lögð á vinnustaðinn, vinnuskilyrði og forsendur fyrir að starfsmenn og stjórnendur geti stundað vinnu sína. Þessi nýja reglugerð kemur til með að hafa mikil áhrif á starfshætti stjórnenda og skipulagningu á vinnustöðum og stuðningur frá sérfræðingum í mannauðsdeildum og öðrum sérfræðingum er mikilvægur í þessu ferli.

Ábyrgð starfsmanna og einstaklingsþættir

Áherslubreyting frá einstaklingsúrræðum til þess að horfa frekar til skilyrða og forsenda á vinnustað, gerir ekki einstaklingsúrræðin minna mikilvæg. Vinnuveitandinn er ábyrgur fyrir að skapa forsendur fyrir að starfsfólk geti unnið sín störf og að fólk geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess. Heilsuefling á vinnustað er mikilvæg og samkvæmt lögum á vinnuveitandi að stuðla að umhverfi sem eflir heilsu og kemur í veg fyrir slys og veikindi hjá starfsfólki. Það er samt sem áður áhyggjuefni að heilsuefling á vinnustöðum er sífellt tengd einstaklingsþáttum eins og hreyfingu, hollu matarræði og tóbaksvörnum. Efling hópa og bætt vinnuskilyrði er alveg jafn mikilvæg en þetta er að mörgu leyti nýtt viðhorf. Það er mun einfaldara að vinna með heilsueflingu einstaklinga og sú hugsun að áherslubreyting verði að eiga sér stað yfir í að bæta vinnuskilyrði kemur til með að taka tíma. Þetta stafar meðal annars af því að þeir þættir eru minna þekktir og aðferðirnar nýjar og flóknar. Það er mun einfaldara að vinna með þætti sem fólk kannast við og virðast einfaldari. Þessi áherslubreyting kemur til með að taka langan tíma og krefst hugrekkis og þolinmæði.

Heilsuefling einstaklinga er alltaf jafn mikilvæg en hún getur aldrei komið í stað þess að huga að aðstæðum á vinnustað. Einstaklingsmiðuð nálgun nægir ekki ein og sér til að koma í veg fyrir streitu eða fjarvistir vegna streitu. Við megum ekki gleyma að heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda og starfsmanna. Starfsmenn bera ábyrgð á eigin heilsu og bera ábyrgð á að vera í stakk búnir að vinna þá vinnu sem ætlast er til af þeim. Vinnuveitandinn er að sama skapi skyldugur til þess að skapa forsendur fyrir því að fólk geti unnið það starf sem ætlast er til af þeim.

Forvarnir sem miða að einstaklingum eru mikilvægar og það eru margar nálganir bæði andlegar og líkamlegar sem hafa góð áhrif á líðan og heilsu. Tengsl hreyfingar og streitu eru vel þekkt og ljóst að hreyfing er mikilvægur þáttur forvarna og meðferðar á streitutengdum sjúkdómum. Mikilvægasta ástæða þess að nota hreyfingu við andlegri streitu og streitutengdum sjúkdómum eru þau sterku tengsl sem hreyfing hefur við fjölmarga sjúkdóma tengdum streitu. Hér er átt við sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma og hina ýmsu verkjasjúkdóma. Regluleg hreyfing er einn mikilvægasti þátturinn hvað varðar forvarnir gegn þessum sjúkdómum og er þess vegna nauðsynleg öllum þeim sem eiga við streituvandamál að stríða.

Samantekt

„Blindan skal á braut leiða“. Áherslubreyting frá einstaklingsúrræðum til þess að einblína meira á starfsskilyrði og forsendur stjórnanda eru nauðsynlegar. Ný þekking, aðrar áherslur og nýjar aðferðir eru nauðsynlegar. Það krefst hugrekkis að hefja þetta ferli og þolinmæði að gera sér grein fyrir að þessi vinna kemur til með að taka tíma. Samvinna allra aðila á vinnumarkaðnum er nauðsynleg og góð samskipti einnig. Mikilvægt er að huga sérstaklega að starfsumhverfi kvenna. Höfum í huga að ef konur og karlar myndu vinna við sömu skilyrði eru líkurnar á streitutengdum einkennum þær sömu. Það er nauðsynlegt að við áttum okkur á þessari staðreynd og að umræðan færist frá því að tala um veikleika kvenna yfir í að ræða meira um aðstæður og forsendur á vinnustaðnum þar sem konur eru í meirihluta.

Við berum öll ábyrgð á að skapa öruggan og eflandi vinnustað og við getum í sameiningu fjarlægt alla steina, stóra sem litla sem að lenda í skónum.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2017 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.

Sjá umfjöllun um streitu og kulnun á velvirk.is

Heimildir 

Björk, L., & Härenstam, A. (2016). Differences in organizational preconditions for managers in genderized municipal services. Scandinavian Journal of Management, 32(4), 209-219.

Brunner, E. J., & Kivimaki, M. (2013). Epidemiology: work-related stress and the risk of type 2 diabetes mellitus. Nat Rev Endocrinol, 9(8), 449-450. doi:10.1038/ nrendo.2013.124

Corin, C., & Björk, L. (2016). Job Demands and Job Resources in Human Service Managerial Work An External Assessment Through Work Content Analysis. Nordic journal of working life studies, 6(4).

Hamer, M., Kivimaki, M., Stamatakis, E., & Batty, G. D. (2012). Psychological distress as a risk factor for death from cerebrovascular disease. CMAJ, 184(13), 1461-1466. doi:10.1503/cmaj.111719

Madsen, I. E., Nyberg, S. T., Magnusson Hanson, L. L., Ferrie, J. E., Ahola, K., Alfredsson, L.et al. Consortium, I. P.-W. (2017). Job strain as a risk factor for clinical depression: systematic review and meta-analysis with additional individual participant data. Psychol Med, 1-15. doi:10.1017/S003329171600355X

Sverke, M. et. al. (2016). Kvinnors och mäns arbetsvillkor – betydelsen av organisatoriska faktorer och psykosocial arbetsmiljö för arbetsoch hälsorelaterade utfall. Arbetsmiljöverket, Stockholm Sweden.

Theorell, T., Hammarstrom, A., Aronsson, G., Traskman Bendz, L., Grape, T., Hogstedt, C., Hall, C. et al. (2015). A systematic review including meta-analysis of work environment and depressive symptoms. BMC Public Health, 15, 738. doi:10.1186/s12889-015-1954-4

Vingård, E. et al (2015). Psykisk ohälsa, arbetsliv och sjukfrånvaro. Forte, Stockholm, Sweden

Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband