Fara í efni

Atvinnutenging VIRK

Atvinnutenging VIRK er samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir í tengslum við ráðningar starfsfólks.

Markmiðið er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingum störf við hæfi og fyrirtækjum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi. 

Gott samstarf við fyrirtæki er grundvöllur farsællar atvinnutengingar. Atvinnulífstenglar VIRK gegna lykilhlutverki í því að tengja einstaklinga við fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja og aðstoða einstaklinginn, en ekki síður vinnustaðinn, við aðlögun og endurkomu til vinnu. 

Samstarf við fyrirtæki og stofnanir hefur gengið vel og viðtökur verið góðar. Hundruðir einstaklinga hafa fengið vinnu með aðstoð atvinnulífstengla VIRK.

VIRK leitar stöðugt eftir samstarfi við ný fyrirtæki og stofnanir sem geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar.

Ávinningur fyrirtækja og stofnana af atvinnutengingu

  • Einfalt ráðningarferli
  • Ráðning byggð á góðum upplýsingum
  • Styrkir jákvæða ímynd fyrirtækisins
  • Fræðsla og stuðningur við ráðningu og þjálfun

Ávinningur fyrirtækja er verðmætur starfsmaður, einfalt ráðningarferli, ráðning byggð á góðum upplýsingum, fræðsla og stuðningur við ráðningu og þjálfun auk þess að hafa jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins.

Ávinningur fyrirtækja liggur einnig í aukinni þekkingu á leiðum til að styðja fólk til starfa á ný eftir veikindi eða slys. Það er ávinningur samfélagsins alls að gera fólki kleift að vera virkir einstaklingar á vinnumarkaði og þar verður hlutverk fyrirtækja og stofnana seint ofmetið.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar.

Hvernig virkar atvinnutengingin?

 

Atvinnulífstenglar VIRK

Mynd: Eyþór Árnason

Atvinnulífstenglar VIRK aðstoða einstaklinga við endurkomu til vinnu í lok starfsendurhæfingar. Í starfi sínu vinna þeir að því að tengja saman einstaklinga og fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja aðila og brúa þannig bilið milli starfsendurhæfingar og vinnumarkaðar.

Þeir veita fyrirtækjum og einstaklingum fræðslu og stuðning eftir þörfum í upphafi starfs, gera vinnuáætlun í samráði við fyrirtæki og einstakling um fyrstu vikur í starfi og fylgja einstaklingum eftir, aðstoða við að yfirstíga hindranir og leysa úr málum.

Atvinnulífstenglar aðstoða einnig einstaklinga sem eru að ljúka starfsendurhæfingu við undirbúning atvinnuleitar. Í því getur falist aðstoð við starfsleit, markmiðasetningu, ferilskrárgerð, umsóknir um störf og undirbúning fyrir atvinnuviðtöl.

Nokkur góð ráð frá Atvinnulífstenglum - myndband

Af hverju „Kombakk“?

Auglýsingaefnið í Kombakk vitundarvakningunni er byggt í kringum konu að snúa aftur á vinnumarkaðinn og hún sett í samhengi tónlistar með hjálp hljómsveitarinnar Retro Stefson, en meðlimir hennar birtast í auglýsingunni.

Tökuorðið „kombakk“ styrkir þessa tengingu, en það hefur unnið sér sess í heimi lista, einkum tónlistar, íþrótta og stjórnendamenningar. Um það vitna dæmi sem koma upp þegar leitað er að orðinu á netinu, bæði í fjölmiðlum og á óformlegri stöðum á borð við bloggsíður og samfélagsmiðla.

Orðið Kombakk hefur í þessu samhengi yfirtóna eftirvæntingar, ólíkt hinu miklu hlutlausara orði „endurkoma“, það hafa öll beðið spennt eftir kombakkinu og fagna því einlæglega þegar viðkomandi snýr aftur. Hún er hetja, stjarna, sem tenging orðsins við dægurmenninguna undirstrikar.

Lagið Back To Life (However do you want me) styrkir þessa tilfinningu, eins og tónlist er ævinlega ætlað að gera. Lagið var stórsmellur á sinni tíð og fjöldi fólks tengir sterkt við það, og boðskapinn um að snúa aftur til lífsins.

Elsta dæmið um orðið „kombakk“ sem finnst á timarit.is er frá árinu 1967, þar sem Elías Mar grípur til þess í þýðingu sinni á smásögunni Vatnaskrímsl tekið tali eftir Simon Grabowski. Alls koma upp vel á þriðja hundrað dæmi um orðið á tímaritsvefnum.

Hafa samband